Færsluflokkur: Bloggar

Hætt og farin...

Hef svosem ekki bloggað lengi og verið að spá í að hætta.  Núna tók Árvakur ákvörðun fyrir mig.  Hef ekki áhuga á að blogga hjá mbl. eða lesa Moggann eða mbl.is fyrst DOddi er orðinn yfir !!

Var á meðan var....takk fyrir mig.


ömmuleikur...3ji og síðasti hluti

Þegar ömmurnar voru nýsofnaðar eftir hvítvínssötrið,- vöknuðu þær við reiðiÖSKUR...Lotta litla var vöknuð...reyndi að fá sér sopa úr brjósti ömmu þýsku en fékk ekki dropa og barnið gjörsamlega missti sig í reiðinni ( það er held ég ekki frá þýsku genunum). Ég hljóp skelfingu lostin inn til þeirra,- og þýska amman vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið,- dætur hennar höfðu örugglega aldrei öskrað svona af reiði !! Þannig að ég tók litla varginn sem vildi nú ekki láta halda á sér heldur æddi upp stigann og sló frá sér þegar ég myndaðist við að aðstoða hana. Enn hélt hún áfram að öskra af reiði,- sýndi skapið....annaðhvurt frá Skagafirði eða Húnavatnssýslu ( pabbi, ég, Kjartan...og nú Lotta ). Ég skildi barnið afskaplega vel en til að þýska amman fengi nú ekki taugaáfall yfir varginum litla þá setti ég hana í barnavagninn góða, snuddu í munninn og ruggaði. Eftir skamma stund var sú stutta dottin,- enda vissi ég af eigin reynslu að svona skapköst endast ansi stutt ;). Ég lagði mig því í sjónvarpssófann með hendi á vagni og sváfum við Þórhildarnar nokkuð vært til morguns. Næsti dagur gekk alveg þrusuvel, snúllast úti,- amma þýska fór í sund með Kolfreyju og Patreki og ég dúllaðist með Lottu á meðan. Síðan fórum við í labbitúr í miðbæinn,- skoðuðum okkur um og hengum lengi á kaffihúsinu í bókabóðinni. Þar var ég reyndar svo heppin að rekast á bókina Seine eigen herr...Sjálfstætt fólk Laxness á þýsku sem ég keypti fyrir ömmu þýsku svo hún skyldi tengdason sinn örlitið betur ( en hann er svolítið mikið Bjartur í Sumarhúsum). Átum vel um kveldið,- svæfðum Lottu í vagninum og ég svaf með henni í sjónvarpsherberginu. Engin reiðiöskur þessa nótt. Þriðjudeginum eyddum við síðan í smátiltekt og þess háttar, ekki mikið hægt að vera úti vegna rigningar. Við ömmurnar vorum nú farnar að sjóast í samveru okkar og börnin léku í höndum okkar. En þá komu náttúrulega foreldrarnir,- loksins þegar við vorum komnar á lygnan sjó með börnin ;) Það var samt afskaplega ljúft að sjá Lottu rífa upp peysu mömmu sinnar og ráðast með áfergju á brjóstið.....en Patrekur litli varð nú bara hálffeiminn,- orðinn vanur þessum ömmum sínum. Foreldrarnir stöldruðu við í þrjá daga og ömmurnar pössuðu nú svo unga fólkið kæmist í bíó og svoleiðis. En ömmurnar fóru líka í góða göngutúra bæði á Fálkafell og í Lystigarðinn. Á föstudeginum þegar þau fóru öll,- líka amma þýska- varð nú svoldið tómahljóð í koti. En þau hljóta að koma aftur....seinna.

Ömmuleikur 2.hluti

Þegar á Akureyrina var komið frekar seint á laugardagskveldið....var amma Akureyri með smá trega og hugsaði til bekkjarfélaga sinna í heita pottinum hjá Jens fyrir austan. En brosið hennar Lottu og skríkirnir í Patreki þurrkuðu fljótt þann trega í burtu. Það voru mikil fagnaðarlæti þegar Lúkas stóri frændi og Kolfreyja stóra frænka hittu litlu krílin. Leikið langt fram eftir kveldi en síðan komu ömmurnar börnunum í bólið. Það gekk nú ekki alveg þrautalaust og að endingu var Patrekur fenginn til að leggjast hjá systur sinni og þá sofnaði hún á nokkrum sekúndum í bóli ömmu þýsku. Patrekur fór síðan í rúmið hjá ömmu Akureyri en um miðja nótt vaknaði Lotta og var ekki í rónni fyrr en hún kom yfir til Patreks og svaf þá lengi frameftir morgni. Dagurinn leið hratt og ljúflega og lífið fór í að kanna ókunnar slóðir í ömmu Akureyri húsi. Síðan var skroppið í göngutúr,- amma Akureyri fór og fékk lánaðan vagn hjá kunningjakonu sinni og þá var nú hægt að bamba út um allan bæ, finna fína leikvelli og leika á Hamratúni. Dýrðarinnar þorskur var steiktur um kveldið og gerð baselikumsmjersósa með og átu allir sem betur gátu. Börnin sofnuðu síðan bæði í rúmi ömmu þýsku en ömmurnar sátu lengi frameftir,- sötruðu smá hvítvín, hlustuðu á Magna og slúðruðu á sínu eigin einka máli,- ensku með íslensku og þýsku ívafi.

Ömmuleikur 1. hluti

Amma Akureyri og amma þýska segir Patrekur Jóhann. Og amma Akureyri og amma þýska héldu frá Akureyri til Skagafjarðar að sækja barnabörnin. Í þvílíkri hellirigningu að aldrei hefur rignt annað eins norðan heiða að mínu mati.  Þýska amman varð hugfangin af íslenska landslaginu og benti og spurði og spurði. Amma Akureyri svaraði og svaraðii,- sumt sem hún vissi,- um annað skáldaði hún bara. Mesta furða að Honda smart hélst á veginum. Í Skagafirði mættum við Vrony, Kjartani og börnunum tveimur Patreki Jóhanni (3ja ára ) og Þórhildi Lottu (1.árs ) hjá bænum Bólu. Þar voru börnin borin sofandi á milli bíla í stólunum sínum foreldrnir kysstir og knúsaðir og sendir til baka til að fara á hestbak í óbyggðum og ömmurnar snéru aftur til Akureyrar með börnin. Þetta var svoldið eins og í útópískri, fellinískri bíómynd,- enska með íslenskum og þýskum hreim aðaltungumálið og amma þýska full vilja til að nema íslensku. Ömmurnar tengdust svo vel í hugum og hjörtum að amma þýska var farin að tala á þýsku við ömmu Akureyri og amma Akureyri farin að svara á tærri íslensku. Hvurt amma Akureyri skyldi þýskuna og svaraði rétt eða út í hróa hött skal ósagt látið. Þegar börnin rumskuðu,- á leið niður Öxnadalinn greip skelfing um sig.....hjá ömmunum báðum. Börnin voru aftur á móti sali róleg og tóku þessari umbyltingu með stóískri ró,- utan þess að Lotta skældi smá...kannske bara til að viðhalda umhyggju frá ömmunum tveimur. Útvarpið var sett í botn og þar söng Magni í beinni frá Bræðslunni á Borgarfirði eystra. Þýska amma heillaðist af Magna,- sérstakalega laginu um Emil í Kattholti og næsta dag hóf hún mikla leita af geisladiskum með honum. Reyndar ekkert svo mikla því hún fann tvo diska í Hagkaup á alveg spottprís.

oj bjakk !!

þar sem ég er alein heima þennan sólarhringinn þá nennti ég ekki að elda heldur slengdi mér í Hagkaup og keypti kjúklingabita.  Nema hvað, það þurfti að bíða eftir bitunum sem voru að koma úr steikningu.  Allt í fína með það og ég bara nr. 2 í biðröðinni.  Þegar kjúllinn kom svo nýsteiktur, (löðrandi í fitu og flottur) fram í borð hafði karlinn sem fyrstur var hraðar hendur og skutlaði slatta af bitum í kassann sinn,- ekki vildi betur til en svo að einn bitinn datt í gólfið....gólfið í Hagkaup sjáið til,- fyrir framan kjúllaborðið þar sem hundruð fólks hafa staðið í dag og sumir með hundaskít á skónum....gaurinn gerði sér lítið fyrir,- beygði sig niður, greip bitann og slengdi honum í boxið sitt  og gekk með það að kassanum.  


sólin...

...heltók mig í heila viku.  Byrjaði í sumarfríi 1.júlí og sólin hefur yljað mér stanslaust síðan.  Fyrstu fjórir dagar í fríi voru nýttir í fótboltamót þar sem foreldrar 5.flokks KA unnu við matarskömmtun o.fl.  Síðan var bara legið í sól þar til í dag.  Kreppupallurinn minn nýttur til hins ýtrasta,- en ég kalla hann kreppupall því í hann var nýtt það efni sem til var á víð og dreif í garðinum okkar.  Hellur og stiklur !! og hann er bara svo fínn.  Það hefur verið svolítið gestarí,- sem okkur í Löngumýrinni finnst bara gaman.  Margir vinir Kolfreyju að austan hafa gist,- Mist, Bjarki, Jón Bragi, Ásgeir og Sara,- þannig að vindsængin hefur verið vel nýtt, og foreldrarnir komið í kaffi, rautt og mat og alles sumir hvurjir.  Nú er Bogi kominn heim í 5 daga stopp,- og á meðan er ekki sól,- nema í hjörtum okkar sko ;)

Á meðan lífið er...

...fótbolti hjá mér er það Icesave hjá alþingi. ( Held það sé svoldið skemmtilegra hjá mér).  N1 mótið er alveg á fullu hér á Akureyri og Lúkas spilar og spilar,- tapar sumum, vinnur aðra og gerir líka jafntefli.  Og ég horfi á, hvet og hoppa á hliðarlínunni,- og skammta síðan öllum þessum gaurum mat, bara gaman hjá okkur.  Alþingisfólkið ræðir Icesave málið og enn og aftur er eins og að það séu bara tvö lið á alþingi.  Get ekki séð að kosningarnar í vor hafi nokkru breytt þar um,- og hin nýja borgarahreyfing sem ætlaði nú aldeilis að innleiða ný vinnubrögð á alþingi tekur upp sömu vitleysuna og hefur verið við lýði þar í alltof mörg ár.  Vera á móti,- bara af því að þau eru ekki í stjórnarliðinu !!  Mér finnst með ólíkindum ef að Icesave verður afgreitt með atkvæðum stjórnar á móti stjórnarandstöðu.  Trúi ekki öðru en að e-hverjir í stjórn séu ekki sammála samningnum,- og að einhverjir í stjórnarandstöðu séu sammála honum.  Enn og aftur,- þoli ekki þessa liðsskiptingu á Alþingi.  Það er mjög eðlilegt að hafa liðsskiptingu hér á N1 mótinu,- en alþingi Íslendinga á ekki að vera í þeim gír, hvað þá á þessum tímum.  Verðum að vinna saman að því að rífa landið okkar út úr þessari "kreppu", þetta er ekki fótboltaleikur !!!


punkteruð....

Alveg punkteruð eftir langa helgi.  Virkilega gaman en drulluþreytt.  Á fimmtudagskveldið fékk ég frábæra nætur og matargesti,- hreindýr og humar var sett á veisluborðið og etið og spjallað.  Á föstudeginum fór ég síðan á Blönduós með börnin,- heitt bað og næs,- og síðan var ekið þvert yfir Þverárfjall ( ha, ha, ha) eldsnemma á laugardag og Kolfreyju fylgt eftir á fótboltamóti á Króknum.  Á milli leikja dinglaði ég um á lummudögum á Króknum, fór á minjasafnið ( alveg frábært) og síðan var útimarkaður og ég veit ekki hvað.  Yfirgaf Kolfreyju fyrir kveldmat ( liðin gistu altsvo saman) og brunaði á Blönduós í grill hjá tengdó,- heimsókn til Immu ömmu, Evu+Kára, Auu og Kobba og aftur heitt bað ;)  ( bara þetta kveld væri nú alveg nóg í þrekið ekki satt ).  Brunað enn og aftur þvert til Króksins í býtið í morgun og Kolfreyju fylgt eftir í súru og sætu ( 3 töp, 1 jafnt, 2 sigrar). Elskuleg tengdamóðir mín kom síðan með Lúkas yfir fjallið svo ég þyrfti ekki að krossa það eina ferð enn seinnipartinn í dag.  Heim....heim...heim....í grill til góðra vina í bústað og nú er það barasta beint í ból. 

Ef ég treysti einhverjum....

....þá treysti ég Steingrími.  Tek þó skýrt fram að hann hlaut ekki atkvæði mitt í kosningunum ( en hefði samt ekkert skammast mín þó ég hefði gert það,- fannst bara annar kostur betri).  En honum treysti ég manna og kvenna best til að leiða þennan samning til lykta.  Ísland verður að standa við skuldbindingar sínar hvort sem okkur líkar betur eða verr og það er morgunljóst að Steingrímur lúffar ekki fyrir neinum eða neinu og nær fram eins hagstæðum samningi og við mögulega gætum fengið.  Guði sé lof að þeir aðilar sem komu okkur í þennan ískalda klaka eru ekki við stjórnvölinn núna,- eða samflokksfólk þeirra.
mbl.is Enginn sýnt fram á að samningurinn stofni Íslandi í hættu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pikkhraðinn...

Ég var e-hvað að pikka í tölvunni í gær og Kolfreyja mín var alveg agndofa yfir hraðanum ( sem er nú ekkert ógurlegur) og vildi endilega að ég lokaði augunum og pikkaði og ég hlýddi því ( býtyping2-web-RS-264x386 að fingrasetningunni sem ég lærði í Grunnskóla Fáskrúðsfjarðar hjá Ernu minnir mig).  Kolfreyju fannst þetta alveg aðdáunarvert og spurði hvurs vegna ég pikkaði svona hratt,- ég sagði henni að ég hefði verið dugleg að æfa mig og svo mætti nú ekki gleyma því að í vinnunni minni þyrfti ég að skrifa töluvert.  Já, sagði Kolfreyja......pabbi vinnur ekkert mikið við tölvur er það ?

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband