Heilsugæslan hin dásamlega
3.10.2007 | 23:29
Mikið er nú dásamlegt að búa við fínt aðgengi að læknisþjónustu. Eins gott þó að undirbúa sjúkdómana vel og betra væri nú að vera skyggn svona á stundum. Dóttir mín kenndi sér meins í september og ég var búin að tala við doktorinn okkar í símatíma og fá ráð, ef það ekki dygði ætti ég að koma með hana á heilsugæsluna. Nú var svo kominn október og enn kenndi stúlkan meinsins. Þannig að ég hringdi í gær til að fá tíma,- nei, ekkert laust fyrr en í næstu viku. Ummm, sagði ég og tjáði við þýðradda símadömuna að doktorinn hefði nú sagt mér að mæta með hana strax og ljóst væri að ekki dygðu símaráð. Nei, ekki smuga, en mér var góðfúslega bent á að ég gæti hringt í doktorinn daginn eftir. Jú jú það gerði ég, en þá var doktorinn ekki við. Hmmm, góð ráð dýr. Hringdi í annan lækni,- laus tími 29 október. Já, já, hvað er nú til ráða??? En þegar ég kom heim í dag hafði umrædd dóttir meitt sig á fæti í skólanum, svo ég tók ákvörðun um að fara á slysó. Þegar við mæðgur skeiðuðum þangað inn um 6leytið var múgur og margmenni fyrir. Ohhh,- ég fór í glerbúrið og þurfti þar að svara spurningunni.......heilsugæsla eða slys? bæði....sagði ég, því ég vildi nota tímann fyrst ég væri komin til doktors og bera meinið upp líka. Það var ekki nógu gott svar og afgreiðsludaman var í mestu vandræðum með að sortera okkur. Slys hvíslaði kona fyrir aftan mig ( vissi greinilega hvað hún söng)....já, já, aðallega slys, sagði ég. Var þá dóttirin skráð inn sem slys og við mæðgur settumst. Hittum einmitt fyrir konu sem ég kannast við sem sat svolítið þreytuleg á biðstofunni með dóttur sinni. Við mæðgur biðum ekki mjög lengi, vorum kallaðar inn sem slys og komið fyrir og yfirheyrðar af hjúkrunarfræðingi, þegar hún yfirgaf rýmið sagði hún,- læknirinn kemur eftir örstutta stund. Við mæðgur spjölluðum og veltum fyrir okkur heimsmálunum. Hálftími ( örstutt stund) leið og þá kom umræddur læknir,- ekkert hægt að gera fyrir fótinn, bara slæmt mar,- kíkti á meinið og yppti eiginlega öxlum og gat lítið ráðlagt sem ég vissi ekki fyrir. Þegar við fórum út kl. sjöþrjátíu hittum við kunningjakonu mína,- sem beið enn ( enda skráð á heilsugæslu en ekki slys) og hafði beðið síðan klukkan FIMM.
Eigum tíma í næstu viku...............
Athugasemdir
Já svona er kerfið hér, eilífð bið og aftur bið. En ég vona að prinsessunni fari að batna og hún þurfi ekki neitt á þessari heilsugæslu að halda.
Kveðja norður
Jóhanna H (IP-tala skráð) 4.10.2007 kl. 18:33
Vá þessi saga gæti næstum hafa gerst á Fáskrúðs....allavega miðað við þær fréttir sem maður fær af viðveru læknis þar.
Jóna Björg (IP-tala skráð) 4.10.2007 kl. 23:41
Já Jóna Björg,- við hefðum bara átt að skella okkur austur á Seyðis ;) hef spurnir af alveg frábærum lækni þar !!
ÞHelga (IP-tala skráð) 5.10.2007 kl. 08:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.