Mamma mín
12.9.2007 | 17:07
Móðir mín góð á afmæli í dag. Hún er orðin 82 ára gömul og man nú tímana tvenna,- eða líklega þrenna/ferna. Fyrsti tíminn hlýtur að vera í foreldrahúsum með systkinum sínum en alls voru þau 14 fædd. Annar tíminn eftir að amma dó og afi fékk berkla og síðan mamma sjálf og var á Vífilsstaðahæli flest sín unglingsár. Þriðji tíminn gift pabba og prestfrú á Kolfreyjustað og fjórði,- nú í dag,- eldri ekkja í Hveragerði.
Mamma hefur sjálf fætt 6 börn og lifa 5 þeirra,- alið upp 2 fóstursyni og að mörgu leyti amk. 3 barnabörn.
Hér er hún með yngsta barnabarnið,- 82 ár á milli en þetta er Þórhildur dóttir Steinvarar, - hún er fædd á afmælisdag pabba og á 30 ára fermingarafmæli móður sinnar.
Ég er semsagt búin að setja inn albúm sem heitir mamma og eru þar nokkrar myndir af henni og systkinum hennar er þau hittust í sumar í Garðinum. Tvær systur mömmu búa í Californiu og hér set ég eina af uppáhaldsmyndum mínum þar sem Alla og mamma tala saman í gegnum vefmyndavél.
Ég fór nú bara að gráta þegar ég horfði á þær spjalla saman. Það væri nú virkilega gaman að fara betur ofaní saumana á sögu þessa systkinahóps frá Miðhúsum í Garði en það bíður betri tíma.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.