Óvitar

óvitarFór með börnin mín á hina dásamlegu sýningu Óvita hjá LA í dag.  Við skemmtum okkur alveg hreint drottningarlega og þessir leikarar eru bara frábærir.  Litlu stýrin eru alveg geggjuð og ég tek nú ofan fyrir bekkjarsystur Kolfreyju henni Sólrúnu sem leikur langömmuna,- 7 ára gömul ;)  En það eru ekki bara leikararnir sem eru frábærir heldur er sviðmyndin alveg ótrúlega skemmtilega sett upp og sniðugar lausnir í ýmsum atriðum.

Leikfélag Akureyrar trekkir líka heldur betur í bæinn.  Í leikhúsinu í dag hitti ég Bryndísi frá Ísafirði ( sem kenndi mér að drullumalla á sínum tíma), Maríönnu kunningjakonu frá Egilsstöðum og Sigþrúði vinkonu úr Þorlákshöfn.  Tvær hinar fyrstnefndu komu gagngert til Akureyrar til að fara í leikhúsið ;) . 

Þess má geta að Sigþrúður og Bryndís eru bloggvinkonur mínar og þið finnið linkana þeirra hér á síðunni.  Veit ekki hvort Maríanna bloggar. 

En semsagt,- allir í leikhús !!!!!


Hjónabandið !!

Í þeim umræðum og  skrifum undanfarið um hvort samkynhneigðir megi ganga í hjónaband eða að þeirra samvist heiti staðfest sambúð hafa nokkrir spegúlantar slegið á að hommar eða lespíur geti gengið í hjónaband því þau geti jú ekki uppfyllt það ákvæði að fjölga mannkyninu. 

Í augum þessara spegúlanta er litið á hjónabandið sem meginforsendu þess að eignast börn.  Ja, hérna hér.  Held nú reyndar að þetta fólk þyrfti smá uppfræðslu um forsendur fjölgunar mannkyns.  Samkvæmt mínum kokkabókum hefur hingað til sem hér eftir ekki verið þörf á hjónabandi til að geta barn !!

Þá segja spegúlantarnir að hjónaband þurfi til að tryggja stöðugt og farsælt uppeldi !!! Ja, hérna hér.  Mér finnst nú gert ansi lítið úr því góða, stöðuga og farsæla uppeldi sem ansi margt fólk hefur fengið hjá,- einstæðum foreldrum, ömmum, öfum og jafnvel alveg vandalausum.  Og hvert er þessi stöðugleiki farin þegar u.þ.b. helmingur hjónabanda endar með skilnaði.  Kallið mig naíva en ég er bara ekki að skilja þessi rök.

Hjónaband hlýtur að vera vegna elsku í hvors annars garð,- og girndar skulum við vona ( sem fylgir nú oft elskunni)- hvort heldur er kona og kona, karl og karl eða kona og karl. 

Mikið vatn getur ekki slökkt elskuna og árstraumar ekki drekkt henni. 


Bloggfærslur 27. október 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband