ömmuleikur...3ji og síðasti hluti

Þegar ömmurnar voru nýsofnaðar eftir hvítvínssötrið,- vöknuðu þær við reiðiÖSKUR...Lotta litla var vöknuð...reyndi að fá sér sopa úr brjósti ömmu þýsku en fékk ekki dropa og barnið gjörsamlega missti sig í reiðinni ( það er held ég ekki frá þýsku genunum). Ég hljóp skelfingu lostin inn til þeirra,- og þýska amman vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið,- dætur hennar höfðu örugglega aldrei öskrað svona af reiði !! Þannig að ég tók litla varginn sem vildi nú ekki láta halda á sér heldur æddi upp stigann og sló frá sér þegar ég myndaðist við að aðstoða hana. Enn hélt hún áfram að öskra af reiði,- sýndi skapið....annaðhvurt frá Skagafirði eða Húnavatnssýslu ( pabbi, ég, Kjartan...og nú Lotta ). Ég skildi barnið afskaplega vel en til að þýska amman fengi nú ekki taugaáfall yfir varginum litla þá setti ég hana í barnavagninn góða, snuddu í munninn og ruggaði. Eftir skamma stund var sú stutta dottin,- enda vissi ég af eigin reynslu að svona skapköst endast ansi stutt ;). Ég lagði mig því í sjónvarpssófann með hendi á vagni og sváfum við Þórhildarnar nokkuð vært til morguns. Næsti dagur gekk alveg þrusuvel, snúllast úti,- amma þýska fór í sund með Kolfreyju og Patreki og ég dúllaðist með Lottu á meðan. Síðan fórum við í labbitúr í miðbæinn,- skoðuðum okkur um og hengum lengi á kaffihúsinu í bókabóðinni. Þar var ég reyndar svo heppin að rekast á bókina Seine eigen herr...Sjálfstætt fólk Laxness á þýsku sem ég keypti fyrir ömmu þýsku svo hún skyldi tengdason sinn örlitið betur ( en hann er svolítið mikið Bjartur í Sumarhúsum). Átum vel um kveldið,- svæfðum Lottu í vagninum og ég svaf með henni í sjónvarpsherberginu. Engin reiðiöskur þessa nótt. Þriðjudeginum eyddum við síðan í smátiltekt og þess háttar, ekki mikið hægt að vera úti vegna rigningar. Við ömmurnar vorum nú farnar að sjóast í samveru okkar og börnin léku í höndum okkar. En þá komu náttúrulega foreldrarnir,- loksins þegar við vorum komnar á lygnan sjó með börnin ;) Það var samt afskaplega ljúft að sjá Lottu rífa upp peysu mömmu sinnar og ráðast með áfergju á brjóstið.....en Patrekur litli varð nú bara hálffeiminn,- orðinn vanur þessum ömmum sínum. Foreldrarnir stöldruðu við í þrjá daga og ömmurnar pössuðu nú svo unga fólkið kæmist í bíó og svoleiðis. En ömmurnar fóru líka í góða göngutúra bæði á Fálkafell og í Lystigarðinn. Á föstudeginum þegar þau fóru öll,- líka amma þýska- varð nú svoldið tómahljóð í koti. En þau hljóta að koma aftur....seinna.

Ömmuleikur 2.hluti

Þegar á Akureyrina var komið frekar seint á laugardagskveldið....var amma Akureyri með smá trega og hugsaði til bekkjarfélaga sinna í heita pottinum hjá Jens fyrir austan. En brosið hennar Lottu og skríkirnir í Patreki þurrkuðu fljótt þann trega í burtu. Það voru mikil fagnaðarlæti þegar Lúkas stóri frændi og Kolfreyja stóra frænka hittu litlu krílin. Leikið langt fram eftir kveldi en síðan komu ömmurnar börnunum í bólið. Það gekk nú ekki alveg þrautalaust og að endingu var Patrekur fenginn til að leggjast hjá systur sinni og þá sofnaði hún á nokkrum sekúndum í bóli ömmu þýsku. Patrekur fór síðan í rúmið hjá ömmu Akureyri en um miðja nótt vaknaði Lotta og var ekki í rónni fyrr en hún kom yfir til Patreks og svaf þá lengi frameftir morgni. Dagurinn leið hratt og ljúflega og lífið fór í að kanna ókunnar slóðir í ömmu Akureyri húsi. Síðan var skroppið í göngutúr,- amma Akureyri fór og fékk lánaðan vagn hjá kunningjakonu sinni og þá var nú hægt að bamba út um allan bæ, finna fína leikvelli og leika á Hamratúni. Dýrðarinnar þorskur var steiktur um kveldið og gerð baselikumsmjersósa með og átu allir sem betur gátu. Börnin sofnuðu síðan bæði í rúmi ömmu þýsku en ömmurnar sátu lengi frameftir,- sötruðu smá hvítvín, hlustuðu á Magna og slúðruðu á sínu eigin einka máli,- ensku með íslensku og þýsku ívafi.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband