Ömmuleikur 1. hluti

Amma Akureyri og amma þýska segir Patrekur Jóhann. Og amma Akureyri og amma þýska héldu frá Akureyri til Skagafjarðar að sækja barnabörnin. Í þvílíkri hellirigningu að aldrei hefur rignt annað eins norðan heiða að mínu mati.  Þýska amman varð hugfangin af íslenska landslaginu og benti og spurði og spurði. Amma Akureyri svaraði og svaraðii,- sumt sem hún vissi,- um annað skáldaði hún bara. Mesta furða að Honda smart hélst á veginum. Í Skagafirði mættum við Vrony, Kjartani og börnunum tveimur Patreki Jóhanni (3ja ára ) og Þórhildi Lottu (1.árs ) hjá bænum Bólu. Þar voru börnin borin sofandi á milli bíla í stólunum sínum foreldrnir kysstir og knúsaðir og sendir til baka til að fara á hestbak í óbyggðum og ömmurnar snéru aftur til Akureyrar með börnin. Þetta var svoldið eins og í útópískri, fellinískri bíómynd,- enska með íslenskum og þýskum hreim aðaltungumálið og amma þýska full vilja til að nema íslensku. Ömmurnar tengdust svo vel í hugum og hjörtum að amma þýska var farin að tala á þýsku við ömmu Akureyri og amma Akureyri farin að svara á tærri íslensku. Hvurt amma Akureyri skyldi þýskuna og svaraði rétt eða út í hróa hött skal ósagt látið. Þegar börnin rumskuðu,- á leið niður Öxnadalinn greip skelfing um sig.....hjá ömmunum báðum. Börnin voru aftur á móti sali róleg og tóku þessari umbyltingu með stóískri ró,- utan þess að Lotta skældi smá...kannske bara til að viðhalda umhyggju frá ömmunum tveimur. Útvarpið var sett í botn og þar söng Magni í beinni frá Bræðslunni á Borgarfirði eystra. Þýska amma heillaðist af Magna,- sérstakalega laginu um Emil í Kattholti og næsta dag hóf hún mikla leita af geisladiskum með honum. Reyndar ekkert svo mikla því hún fann tvo diska í Hagkaup á alveg spottprís.

oj bjakk !!

þar sem ég er alein heima þennan sólarhringinn þá nennti ég ekki að elda heldur slengdi mér í Hagkaup og keypti kjúklingabita.  Nema hvað, það þurfti að bíða eftir bitunum sem voru að koma úr steikningu.  Allt í fína með það og ég bara nr. 2 í biðröðinni.  Þegar kjúllinn kom svo nýsteiktur, (löðrandi í fitu og flottur) fram í borð hafði karlinn sem fyrstur var hraðar hendur og skutlaði slatta af bitum í kassann sinn,- ekki vildi betur til en svo að einn bitinn datt í gólfið....gólfið í Hagkaup sjáið til,- fyrir framan kjúllaborðið þar sem hundruð fólks hafa staðið í dag og sumir með hundaskít á skónum....gaurinn gerði sér lítið fyrir,- beygði sig niður, greip bitann og slengdi honum í boxið sitt  og gekk með það að kassanum.  


sólin...

...heltók mig í heila viku.  Byrjaði í sumarfríi 1.júlí og sólin hefur yljað mér stanslaust síðan.  Fyrstu fjórir dagar í fríi voru nýttir í fótboltamót þar sem foreldrar 5.flokks KA unnu við matarskömmtun o.fl.  Síðan var bara legið í sól þar til í dag.  Kreppupallurinn minn nýttur til hins ýtrasta,- en ég kalla hann kreppupall því í hann var nýtt það efni sem til var á víð og dreif í garðinum okkar.  Hellur og stiklur !! og hann er bara svo fínn.  Það hefur verið svolítið gestarí,- sem okkur í Löngumýrinni finnst bara gaman.  Margir vinir Kolfreyju að austan hafa gist,- Mist, Bjarki, Jón Bragi, Ásgeir og Sara,- þannig að vindsængin hefur verið vel nýtt, og foreldrarnir komið í kaffi, rautt og mat og alles sumir hvurjir.  Nú er Bogi kominn heim í 5 daga stopp,- og á meðan er ekki sól,- nema í hjörtum okkar sko ;)

Á meðan lífið er...

...fótbolti hjá mér er það Icesave hjá alþingi. ( Held það sé svoldið skemmtilegra hjá mér).  N1 mótið er alveg á fullu hér á Akureyri og Lúkas spilar og spilar,- tapar sumum, vinnur aðra og gerir líka jafntefli.  Og ég horfi á, hvet og hoppa á hliðarlínunni,- og skammta síðan öllum þessum gaurum mat, bara gaman hjá okkur.  Alþingisfólkið ræðir Icesave málið og enn og aftur er eins og að það séu bara tvö lið á alþingi.  Get ekki séð að kosningarnar í vor hafi nokkru breytt þar um,- og hin nýja borgarahreyfing sem ætlaði nú aldeilis að innleiða ný vinnubrögð á alþingi tekur upp sömu vitleysuna og hefur verið við lýði þar í alltof mörg ár.  Vera á móti,- bara af því að þau eru ekki í stjórnarliðinu !!  Mér finnst með ólíkindum ef að Icesave verður afgreitt með atkvæðum stjórnar á móti stjórnarandstöðu.  Trúi ekki öðru en að e-hverjir í stjórn séu ekki sammála samningnum,- og að einhverjir í stjórnarandstöðu séu sammála honum.  Enn og aftur,- þoli ekki þessa liðsskiptingu á Alþingi.  Það er mjög eðlilegt að hafa liðsskiptingu hér á N1 mótinu,- en alþingi Íslendinga á ekki að vera í þeim gír, hvað þá á þessum tímum.  Verðum að vinna saman að því að rífa landið okkar út úr þessari "kreppu", þetta er ekki fótboltaleikur !!!


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband